Aðalfundur Fallís var haldinn 10.júní 2021 og var það í fyrsta sinn síðan í mars 2014 sem
haldinn hafði verið aðalfundur. Fundinn sóttu 13 manns og voru eftirfarandi kjörnir í stjórn á
fundinum:
● Skúli Þórarinsson, forseti
● Jón Ingi Þorvaldsson, gjaldkeri
● Rafn H. Gíslason, ritari
● Hlöðver Þór Árnason, varamaður
Félagsgjöld voru ákveðin 10.000 kr. fyrir fulla aðild og stjórn ákvað í framhaldi að nýta
heimild sem aðalfundur veitti til þess að bjóða upp á tímabundið leyfi fyrir 7.000 kr.
Alls greiddu 24 fyrir fulla aðild að Fallís á árinu 2021 og greitt var fyrir tímabundin leyfi fyrir
75 til viðbótar.
Rekstrartekjur voru samtals 661.500 kr. og rekstrarkostnaður var 86.160 kr. Að viðbættum
fjármagnstekjum upp á 349 kr. var heildarafkoma jákvæð um 575.689 kr. Bankainnistæður
(eigið fé) í lok árs voru 1.133.712 kr.
Fyrstu verk nýrrar stjórnar voru að tryggja að Fallís hefði tilskilin leyfi frá Samgöngustofu til
að starfa sem fallhlífaklúbbur og ganga frá tryggingum, m.a. vegna fyrirliggjandi stökkhátíðar
á vegum Icehopp í september. Einnig var farið í að hanna nýtt lógó, nýtt stafrænt skírteini,
skrá net-lén (fallis.is) og leggja drög að nýjum vef fyrir Fallís sem opnaður var í apríl 2022.
Gengið var frá 3ja aðila tryggingum hjá TM.
Skipulagðir voru alls þrír stökkdagar í samstarfi við CircleAir á Melgerðismelum á Akureyri, 5.
júní, 19. júní (Flughátíð á Akureyri) og 28. ágúst. Það var Jón Ingi Þorvaldsson sem bar
hitann og þungann af því að skipuleggja þessa daga og koma á samstarfinu við CircleAir en
samkomulag náðist við félagið um að stökkvarar greiddu 7000 kr. fyrir hvert slott.
Stökkhátíðin Icehopp var haldin dagana 5.-11.september og voru gestir alls 76 talsins, þar af
5 Íslenskir stökkvarar og 71 erlendis frá. Notast var við Twin-Otter vél frá Norlandair og
stokkið var víðsvegar um landið og m.a. lent við Seljalandsfoss, í Reynisfjöru, við Fjallsárlón,
á Sauðvöllum, við Öskjuvatn, Mývatn, Ásbyrgi og inni í Hverfjalli, svo eitthvað sé nefnt.
Þetta var í fyrsta sinn sem svona “Innhopp” viðburður sem þessi var haldinn á Íslandi en hinn
norski Even Rokne hefur áður skipulagt sambærilega viðburði m.a. í Namibíu, Slóveníu og á
Seychelle eyjum og má segja að hann sé upphafsmaður að þessu concepti.
Frá og með deginum í dag 2.5.2022 er Fallhífasamband Íslands loksins formlega
viðurkenndur sem fallhlífaklúbbur af Samgöngustofu eftir reglugerðarbreytingu sem var gerð
árið 2010. Mikil vinna hefur farið í að breyta gömlu “reglugerð Fallís” sem nú er kölluð
“handbók” og er aðgengileg öllum á vefnum okkar (fallis.is). Fallís hefur einnig endurvakið
samband sitt við Flugmálafélag íslands og er þar með aðili að FAI (Fédération Aéronautique
Internationale).
Meðfylgjandi er ársskýrsla Fallís á PDF sniði auk ársreiknings fyrir 2021.
Comments